Andrea og Hjördís kíktu í heimsókn í Ljósið, þar sem Heiða tók vel á móti þeim og leyfði þeim skyggnast inn í það magnaða starf og þjónustu sem Ljósið býður upp á. Það er einstaklega hlýlegt og gott andrúmsloft hjá þeim á Langholtsvegi og er áberandi að mikill metnaður er lagður í allt það sem þau gera.
Ljósið var stofnað af Ernu Magnúsdóttur árið 2006 og er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess. Markmið Ljóssins er að fólk fái sérhæfða endurhæfingu- og stuðning, þar sem fagfólk aðstoðar við að byggja upp líkamlegt og andlegt þrek, auk þess að fá stuðning við að setja sér markmið sem auka daglega virkni og hafa þannig áhrif á lífsgæði almennt.
Hjá Ljósinu starfa fagaðilar með mjög fjölbreytta þekkingu eins og iðjuþjálfar, sjúkraþjálfarar, íþróttafræðingar, fjölskyldumeðferðarfræðingur, næringarfræðingur, markþjálfar, jógakennarar, nuddarar, læknar, handverksfólk og fleiri.
Í hverri viku eru 100-140 komur í Ljósið þar sem fólk mætir í hópastarf eða fær einstaklingsþjónustu og er aldeilis margt í boði eins og til dæmis ýmis námskeið, fræðslufundir, jóga, gönguhópar, líkamsrækt, handverkshópar, nudd og margt fleira.
Hægt er lesa nánar um Ljósið á heimasíðu þeirra, skoða hvað er í boði og einnig styrkja þeirra frábæra starf.
Tinna okkar nýtti sér þjónustu Ljóssins og þótti afar vænt um starfsemina og fólkið sem hún kynntist þar og þess vegna ákvað TeamTinna að styrkja Ljósið um 300.000kr.
Takk fyrir yndislegar móttökur Heiða og öll hjá Ljósinu 🙂