Mia Magic er einstakt góðgerðarfélag sem styður við langveik börn og fjölskyldur þeirra. Upphafið af Miu Magic var bókin Mía fær lyfjabrunn þar sem lesandi fylgist með Míu fá lyfjabrunn, hvernig það er gert og hvernig hann virkar. Bókin hefur notið mikilla vinsælda um allan heim og hefur nú þegar verið þýdd á 3 tungumál. Síðan þá hefur bókin Mía fer í tívolí verið gefin út og er nýjasta Míu bókin Mía fer í blóðprufu væntanleg.
Mia Magic afhendir einnig Míu box mánaðarlega til langveikra barna frá aldrinum 0 til 18 ára og foreldra. Míu boxin eru sniðin að einstaklingnum sem fær það og er því hvert box einstakt.
Hér fyrir neðan sést dæmi um innihald í einu Míu boxi sem var afhent núna 2024.
Hjördís og Andrea hittu stofanda Miu Magic, Þórunni Evu, á Te & kaffi í Garðabænum og var yndislegt að hitta og spjalla aðeins við hana. Þórunn leyfði þeim meira að segja að sjá smá „sneak peak“ af nýjustu Míu bókinni Mía fer í blóðprufu og má með sanni segja að hún er glæsileg og verður virkilega gaman að sjá hana í heild sinni þegar hún kemur út. 😀
Mia Magic hafði sérstakan stað í hjarta Tinnu okkar enda alveg í hennar anda. TeamTinna styrkti Mia Magic um 300.000kr og þökkum við Þórunni Evu innilega fyrir allt það sem hún hefur gert í þágu langveikra barna og viljum við benda á að allt hennar starf er gert í sjálfboðavinnu!
Endilega kíkið á þetta magnaða verkefni á heimasíðu Mia Magic en þar er hægt að lesa allt um bækurnar, Míu boxin, starfið og svo er einnig hægt að styrkja starfsemina.